Ársannáll Háskólakórsins

Árið 2019 var annasamt ár hjá meðlimum Háskólakórsins.

Janúar

Við byrjuðum árið á háu nótunum og héldum prufur fyrir nýja meðlimi og fengum margar einstaklega fallegar raddir og yndislegt fólk.
Það varð svo til að við fórum strax í kórbúðir í janúar í Varmaland. Þrátt fyrir mikinn snjó og heljarinnar hálku þá komust allir öruggir inn á æfingar.
Hæfileikakeppni hélt okkur í fullu fjöri langt fram á nótt og sigurinn hreppti Michael fyrir afar flotta diablo sýningu.
Aukaaðalfundur eða nýliðafundur eins og við köllum hann var haldinn á Bar Ananas. Valdir voru nýjir meðlimir í nefndirnar okkar, sem er mikilvægt fyrir öll störf kórsins.

Febrúar

Nýliðapartý kenndi nýjum meðlimum á hvernig alvöru kórpartý eiga að vera. Það er með miklum söng og geggjaðri stemmingu.
Við héldum kosningu um áfangastað kórferðar þessa árs og varð niðurstaðan að Háskólakórinn væri á leiðinni til Finnlands í júní að keppa í alþjóðakórakeppninni Tampereen Sävel. Vegna þessa hófum við æfingar á nokkrum krefjandi verkum til þess að taka með okkur þangað.

Mars

Árshátið Háskólakórsins var haldin í mars með pompi og prakt. Þemað var ansi óhefðbundið en það var leynilögreglur, Costa del Sol og kóríander. Kórmeðlimir komu saman spariklæddir í íþróttahúsi Seltjarnarness, borðuðu saman og skemmtu sér fram á nótt.

Apríl

Aðalfundur
Tveir meðlimir Háskólakórsins tóku sig til og endurskrifuðu nær allan lagabálk Háskólakórsins þar sem hann var orðinn gamall og þau stjórnmálafræðinemar sem elska stjórnsýslu. Því var kosið um hverja einustu lagabreytingu og var því aðalfundurinn afar langur. Núna erum við einkum stolt af þeim breytingum sem komust í gegn þar sem að aukið lögmæti er nú í störfum Háskólakórsins.
Ný stjórn var kosin til þess að taka til starfa eftir lokapróf. Niðurstaðan var eftirfarandi:
Forseti: Svana Björg Eiríksdóttir
Varaforseti: Anna Bjarnsteinsdóttir
Gjaldkeri: Diljá Þorkelsdóttir
Skemmtanastjóri: Védís Mist Agnadóttir
Ritari: Rökkvi Hlér Ágústsson

Maí

Próf og lokaskil urðu til þess að æfingar voru styttri um tíma.
Lögin fyrir Tampereen Sävel voru nær tilbúin og vorum við að vinna í allskyns fínpússun á verkunum.

Júní

1. júní flugum við saman út til Helsinki. Þar vorum við í fimm daga að syngja í mismunandi kirkjum og öðrum viðburðum. Ásamt því höfðum við tíma til þess að kynnast borginni og skemmta okkur saman. Síðan fórum við til Tampere til þess að taka þátt í keppninni sem gekk afar vel, og var skemmtileg reynsla fyrir okkur öll.
Nánari færslu um Finnland er að finna á kor.hi.is: https://kor.hi.is/?p=1059
Flugið okkar heim var síðan fellt niður að morgni dags. Ferðanefndarmeðlimir stóðu sig eins og hetjur þrátt fyrir talsvert stress. Þau fundu fyrir okkur gistingu á ágætis hóteli í þar sem við gistum í eina nótt. Allir fengu flug heim næsta dag og Icelandair borgaði fyrir allt uppihald á þessum aukadegi.

Júlí

Sumarfrí var fyrir kóræfingar en það gat ekki haldið okkur frá því að hittast og fara saman í útilegu. Snæfellsnes varð fyrir valinu og vorum við afar heppin með veður. Við gistum nálægt sjónum og fórum í sjósund á kvöldin. Gönguferðir um Þjóðgarðinn Snæfellsjökul um daginn og sundferð í Lýsuhólslaug. Borðuðum saman góðan mat og sungum við gítarspil langt fram á nótt.

Ágúst

Við fórum á milli bygginga Háskóla Íslands og sungum nokkur lög til þess að kynna kórinn og fá fleiri í prufur.
Margir mættu í kórprufur og var fyrsta æfing annarinnar troðfull af nýjum meðlimum. Við vorum eitthvað í kringum 90 manns strax eftir prufur en eins og alltaf helltist eitthvað úr lestinni.
Við héldum auka-aðalfund þar sem kosinn var nýliðafulltrúi í stjórn og hreppti Tryggvi Jóhönnuson Thayer titilinn. Fundurinn var á Curious bar og að fundarhöldum loknum var sungið, dansað og fluttu eldri meðlimir atriði frá Finnlandi fyrir þá nýju með mikilli gleði.

September

Hið hefðbundna nýliðapartý var haldið í eldhúsi á stúdentagörðum, eins og margoft áður. Fengu því nágrannarnir að heyra skemmtilegar útgáfur af lögunum okkar. 

Við fórum í smá myndatöku

Október

Kórbúðir voru að þessu sinni í Árnessýslu. Æfingar á stórverkinu Carmina Burana fóru fram daginn út og inn. Á milli þess sem að við skemmtum okkur saman, höfðum nýliðainnvígslu og gerðum raddatriði hvert fyrir annað.
Stjórnin eldaði dýrindis kvöldmat fyrir liðið, Vegan Oumph! Mexico súpu sem heppnaðist afar vel. Fólk skemmti sér síðan vel í heitum pottum, í göngutúrum og huggulegheitum saman yfir helgina.
Uppskrift af súpunni fengum við af Veganistur, sjá: http://www.veganistur.is/blogg/2017/6/4/vuzmz2d6isnk1zb778uaoop8zdbi9v
Við fengum bakkelsi meðal annars frá Brauð&co auk þess að fá allskyns gúmmelaði frá 17 sortum.

Nóvember

Snemma í nóvember var Hrekkjavökupartý haldið að góðum sið. Þar var búiningakeppni og hart slegist um sigurinn. Að sjálfsögðu var lýðræðisleg kosning varðandi málið og hér má sjá skemmtilegar myndir af búningunum:

Eftir þaulmikla skipulagningu að hálfu stjórnar Háskólakórsins var komið að því að flytja stórverkið Carmina Burana í Langholtskirkju. Erum við í stjórinni afar ánægð með árangurinn, enda heppnaðist flutningurinn afar vel og miðasala gekk vonum framar. 

Desember

Eftir lokapróf Háskólanema héldum við rólega jólatónleika. Þar sungum við öll helstu íslensku jólalögin og buðum gestum að hlýða á okkur ókeypis.
Við fluttum jólalög í Hjartagarði inni í jólaþorpi. Stóðum með nokkuð frosnar tær en tókst að syngja tærar heldur en gerist oft.
Í tilefni þess að Árnastofnun varð 50 ára þá sungum við í jólafríinu í Árnagarði fyrir Rektor, Forseta Íslands og fleiri góða væga gesti. Eins og alltaf finnst okkur gaman að vera stór hluti af háskólalífinu.
Við enduðum söngárið okkar saman í miðnæturmessu Neskirkju. Þar sungum við jólalögin okkar fyrir söfnuðinn og áttum fallega jólastund saman við kertaljós.

Meðlimir Háskólakórsins vilja þakka öllum fyrir samveruna og góðu stundirnar árið 2019 og hlakkar til þess að syngja meira árið 2020. Gleðilegt nýtt ár.

*A translation pending review