Lög Háskólakórsins

Lög Háskólakórsins

1. grein
Kórinn heitir Háskólakórinn og heimili hans og varnarþing er í Reykjavík.

2. grein
Markmið kórsins er að gefa félögum hans kost á að kynnast tónlist af ýmsu tagi og veita um leið öðrum innsýn inn í heim tónlistarinnar.

3. grein
Starfstími kórsins er að jafnaði frá 15. september til 20. apríl. Að auki kemur kórinn saman til æfinga í júní ár hvert og syngur við útskrift frá Háskóla Íslands.

4. grein
Félagar kórsins skulu alla jafna vera skráðir stúdentar við Háskóla Íslands. Einnig er heimilt að veita öðrum þeim sem áhuga hafa á starfsemi kórsins inngöngu í hann og er það í höndum stjórnanda og stjórnar hverju sinni að ákveða hverjir skulu teknir inn.

5. grein
a) Það skal vera í höndum stjórnar jafnt sem kórstjóra að hafa úrskurðarvald um fjölda kórfélaga. Kórinn skal vera blandaður.

b) Ef stjórnandi telur æskilegt má hvenær sem er raddprófa alla eða einstaka félaga kórsins.

c) Stjórnandi og stjórn kórsins skulu taka mið af samþykktum siðareglum við allt starf kórsins.

6. grein
a) Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum kórsins. Hann skal haldinn fyrir 1. maí ár hvert og til hans boðað með viku fyrirvara. Á dagskrá hans skulu vera eftirtalin atriði:

1. skýrsla stjórnar
2. endurskoðaðir reikningar lagðir fram til samþykkis
3. lagabreytingar
4. ráðning stjórnanda
5. kosning formanns
6. kosning annarra stjórnarmanna
7. kosning skoðunarmanns reikninga
8. önnur mál

Fundur er löglegur ef löglega er til hans boðað. Skal einfaldur meirihluti ráða ákvörðunum hans. Þeir einir hafa atkvæðisrétt á fundinum sem greitt hafa þátttökugjald yfirstandandi starfsárs og tekið virkan þátt í starfsemi kórsins á sama tíma. Komi upp ágreiningur um þetta atriði skal stjórn kórsins hafa úrskurðarvald.

b) Lagabreytingartillögur skulu berast stjórn kórsins skriflega ekki síðar en fjórum dögum fyrir aðalfund. Stjórn ber að kynna þær minnst tveimur dögum fyrir aðalfund.

c) Almennan kórfund skal halda ef stjórnin telur ástæðu til. Ennfremur er skylt að boða til slíks fundar ef a.m.k. 20% kórfélaga æskja þess. Slíkir fundir skulu hlíta almennum reglum um fundarsköp.

d) Halda skal einn kórfund í upphafi starfsárs kórsins og á fundinum skal:

1. fyrirhugað starf kórsins kynnt

2. kosning nýliðafulltrúa í stjórn

3. fjáröflunarnefnd skipuð

4. ferðanefnd skipuð

5. skemmtinefnd skipuð

6. kaffinefnd skipuð

7. auglýsinga- og markaðsfulltrúar kosnir

8. trúnaðarmenn kosnir

7. grein
a) Stjórnin skal skipuð sex kórmeðlimum: formanni, varaformanni, ritara, gjaldkera, meðstjórnanda og nýliðafulltrúa. Allir félagar kórsins eru kjörgengir til hennar, en nýliðafulltrúi skal vera nýr meðlimur sem kosinn er á haustfundi. Stjórn hvers árs hefur heimild til að opna framboð nýliðafulltrúa fyrir aðra en nýliða, ef talin er þörf á slíku.

b) Formaður skal hafa yfirumsjón með öllu starfi kórsins. Varaformaður skal vera staðgengill formanns í fjarveru hans. Einnig skal varaformaður vera tengiliður í allar nefndir kórsins og hafa yfirumsjón með þeim. Gjaldkeri skal hafa yfirumsjón með öllum fjármálum kórsins. Ritari skal halda yfirlit yfir allt sem fjallað er um og samþykkt á stjórnar- og almennum kórfundum. Einnig ber ritari ábyrgð á heimasíðu kórsins. Meðstjórnandi skal hafa umsjón með öllum nótum sem kórinn á. Einnig skal meðstjórnandi sjá um að skipa hópa í messur. Nýliðafulltrúi skal fara með málefni nýliða, auk þess skal hann sjá um öll tengsl kórsins við Háskóla Íslands og Neskirkju.

c) Stjórnarskipti skulu hafa átt sér stað eigi síðar en 1. september á þar til gerðum fundi, þar sem fráfarandi stjórn útskýrir fyrir nýkjörinni stjórn starfsemi og hlutverk stjórnar.

8. grein

Verði einhver stjórnarmanna að segja af sér milli aðalfunda skal við fyrsta tækifæri halda almennan kórfund og kjósa annan í hans stað.

9. grein
a) Stjórnandi kórsins er ráðinn á aðalfundi til eins árs í senn og sér stjórnin um val hans. Ákvörðun hennar skal hljóta samþykki fundarins.

b) Stjórnandi skal að jafnaði sitja stjórnarfundi og hefur hann þar málfrelsi og tillögurétt.

c) Forfallist stjórnandi um lengri eða skemmri tíma skal á almennum kórfundi tekin afstaða til þess hvort ráða skuli annan til að gegna störfum í fjarveru hans. Staðgengillinn skal valinn í samráði við stjórnanda ef mögulegt er og hljóta samþykki meirihluta kórsins.

10. grein
a) Fastar æfingar skulu vera tvisvar í viku. Aukaæfingar eftir þörfum og að beiðni stjórnanda, en tillit skal þá tekið til námsálags félaga.

b) Starfsáætlun skal liggja frammi í upphafi starfsárs. Verkefnaval skal vera í höndum stjórnar og stjórnanda. Meirihluti kórsins hefur vald til að hnekkja verkefnavali á almennum kórfundi.

c) Stefnt skal að því að frumflytja minnst eitt íslenskt tónverk á ári.

d) Kórinn kemur fram:
1. á auglýstum tónleikum kórsins.
2. að beiðni rektors eða skrifstofu Háskólans með samþykki meirihluta kórsins. Stjórn og stjórnandi taki ákvörðun um aðra tónleika í samráði við kórfélaga.

e) Þátttökugjald skal ákveðið af stjórn og greiðist a.m.k. helmingur þess í upphafi starfstímabils kórsins og er það í höndum stjórnar að ákveða hvenær afgangurinn er greiddur.

f) Stjórnarmeðlimir eru undanþegnir þátttökugjaldi á því starfsári sem þeir gegna embætti.

g) Þeir kórfélagar sem taka að sér setu í fjáröflunarnefnd, ferðanefnd og skemmtinefnd fá sérstök rökstudd hlunnindi sem ákveðin eru af stjórn kórsins og gert er grein fyrir í skýrslu stjórnar á aðalfundi. Stærðir nefnda eru breytanlegar eftir starfsárum og ákveðnar af stjórn kórsins.

h) Allar ákvarðanir sem snerta skipulag kórstarfsins, framkomu kórsins og kostnað við tónleikahald skulu bornar undir stjórn sem hefur endanlegt ákvörðunarvald.

11. grein
a) Fari svo að kórinn hætti störfum renna eignir hans til Háskólans. Skulu þær geymdar í sérstökum sjóði þannig að þær ávaxtist sem best og afhendast þeim kór einum er Háskólaráð telur lögmætan arftaka Háskólakórsins.

b) Að 10 árum liðnum skal Háskólaráð fá fullan yfirráðarétt yfir eignunum og ráðstafa þeim að vild.

12. grein
Lög þessi öðlast gildi 5. júní 2010. Jafnan falla úr gildi eldri lög.

Undanfarin lög voru síðast samþykkt á aðalfundi Háskólakórsins 3. júlí 2015 með nokkrum breytingum frá því áður.