Helgina 4.-6. febrúar hélt Háskólakórinn í æfingabúðir. Fóru þær fram í Hlíðardalsskóla, sem er rétt hjá Þorlákshöfn. Þrátt fyrir slæm veðurskilyrði létu meðlimir kórsins það ekki á sig fá og mættu langflestir galvaskir á æfingu kl. 8 á föstudagskvöldið. Laugardagurinn var síðan tekinn með trompi og var æft frá 10-19, með pásum að sjálfsögðu.
Háskólakórinn æfði Carmina Burana eftir Carl Orff að fullum krafti enda fer að styttast í tónleika kórsins með Ungfóníunni. Æfingarnar gengu vægast sagt frábærlega og er kórinn fullur eftirvæntingar fyrir tónleikunum.
Á laugardagskvöldinu voru nýir meðlimir vígðir inn í kórinn ásamt því að raddir (sópran, alt, tenór, bassi) sýndu skemmtiatriði. Að lokum var haldin fyrsta hæfileikakeppni Háskólakórsins og gekk hún vonum framar.
Myndir frá helginni fara síðan að detta inn hægt og rólega, fylgist spennt með!
Við þökkum meðlimum Háskólakórsins kærlega fyrir mjög vel heppnaða helgi.
Kær kveðja,
Stjórnin
P.s. Segja má að Yaris hafi verið bíll ferðarinnar en þrír slíkir bílar komust fram og til baka án stórtækra vandræða.